Innlent

Starfsmenn kirkjunnar þurfa að heimila aðgang að sakaskrá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Ebba Ólafsdóttir sagði Kirkjuráði sögu sína. Mynd/ Valgarður.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir sagði Kirkjuráði sögu sína. Mynd/ Valgarður.
Þjóðkirkjan er nú að fara af stað með átak þar sem allir starfsmenn kirkjunnar verða beðnir um að samþykkja að heimila aðgang að sakaskrá með tilliti til kynferðislegs ofbeldis. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Kirkjuráð sendi frá sér í dag.

Þar kemur fram að Þjóðkirkjan hafi tekið skýra afstöðu gegn ofbeldi gegn konum og börnum. Þjóðkirkjan standi með þeim einstaklingum og samtökum sem vinni með þolendum ofbeldis svo og þeim sem stuðli að vitundarvakningu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, gekk á fund Kirkjuráðs í gær og sagði sögu sína. Áður hafði hún sent erindi og átt fund með biskupi þar sem hún vildi brýna kirkjuna til að taka skýra afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi og lýsa það vera synd. Í framhaldi af því hófu biskup og kirkjuráð endurskoðun m.a. á reglum frá 1998 um fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.

Þá voru og samdar siðareglur sem samþykktar voru á kirkjuþingi 2009 og taka til presta og djákna og alls starfsfólks kirkjunnar svo og sjálfboðaliða. Það sé í samræmi við þessar siðareglur sem nú sé að fara af stað átak þar sem allir starfsmenn kirkjunnar verði beðnir um að samþykkja að heimila aðgang að sakaskrá með tilliti til kynferðislegs ofbeldis, segir í yfirlýsingu frá Kirkjuráði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×