Innlent

Lögreglan komin á Facebook

Valur Grettisson skrifar
Lögreglan á Facebook.
Lögreglan á Facebook.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er komin á samskiptasíðuna Facebook. Fjöldi Íslendinga nota þessa heimsfrægu samskiptasíðu og lögreglan virðist ekki ætla að láta sitt eftir liggja.

Í lýsingu á síðunni segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi það sem meginmarkmið að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu.

Til þess að vinna að þessum markmiðum er lögð áhersla á nokkur lykilatriði, þar á meðal sýnilega löggæslu, hverfa- og grenndarlöggæslu, forvarnastarf í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga, gæði og skilvirkni við rannsóknir sakamála og öfluga upplýsingamiðlun.

Lögreglan hvetur jafnframt þá sem sækja síðuna til þess að umgangast hana af ábyrgð. Þannig undirstrikar lögreglan að síðan sé ekki rétti staðurinn til að setja inn upplýsingar um tiltekin brot, tiltekin mál, grunsemdir um afbrot eða brotamenn eða kvartanir.

Slíkum hlutum er rétt að koma á framfæri við lögreglu í gegnum síma, með bréfi eða tölvupósti eða með því að mæta á lögreglustöð á þínu svæði eða sveitarfélagi.

Fjölmörg fyrirtæki og áhugasamtök nýta sér Facebook. Hægt er að nálgast síðuna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×