Erlent

Óvíst um áhrif á loftbelgsflug

Carol Rymer Davis og Richard Abruzzo lögðu af stað frá Bretlandi en fórust fjórum dögum síðar þegar loftbelgur þeirra hrapaði í Adríahaf.Fréttablaðið/AP
Carol Rymer Davis og Richard Abruzzo lögðu af stað frá Bretlandi en fórust fjórum dögum síðar þegar loftbelgur þeirra hrapaði í Adríahaf.Fréttablaðið/AP
Leifarnar af loftbelg sem hrapaði í Adríahafið í september komu upp með veiðarfærum ítalskra sjómanna út af ströndum Ítalíu í gær. Í körfunni voru lík manns og konu sem flugu loftbelgnum.

Fólkið tók þátt í langflugskeppni loftbelgjaáhugafólks sem lagði af stað frá Bretlandi 25. september. Loftbelgur þeirra hvarf af ratsjá fjórum dögum seinna. Að sögn Dons Cameron, eins af skipuleggjendum keppninnar, er alls óvíst hvaða áhrif banaslysið mun hafa á keppni í loftbelgsflugi. Hann sagðist reikna með að málið verði tekið upp á næstunni. „Það er gott að það er loksins búið að finna þau. Það hjálpar fjölskyldum þeirra að komast yfir þetta áfall,“ sagði David Melton, áhugamaður um loftbelgi og vinur fólksins.

Loftbelgurinn verður rannsakaður og lík fólksins krufin til að freista þess að komast að því hvað olli því að loftbelgurinn hrapaði í sjóinn. Talið er víst að fólkið hafi verið með flotgalla og annan útbúnað til að lifa af nauðlendingu á vatni, en því virðist ekki hafa gefist ráðrúm til að nota búnaðinn. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×