Innlent

Jóhanna ánægð með grundvallarstefnu NATO

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir var á leiðtogafundi NATO í Lissabon.
Jóhanna Sigurðardóttir var á leiðtogafundi NATO í Lissabon.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var viðstödd leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í dag og í gær. Þar lýsti hún sérstakri ánægju með aukna áherslu á pólitískt samráð og eflingu borgaralegrar uppbyggingar innan NATO sem ætlað er að endurspegla heilstæða nálgun í verkefnum og aðgerðum bandalagsins. Á vef forsætisráðuneytisins segir að í yfirlýsingu fundarins hafi verið sérstaklega vísað í ákvæði ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2000 um konur, frið og öryggi, sem hafi verið áherslumál af hálfu Íslands.

Forsætisráðuneytið segir að leiðtogaráð NATO hafi á fundum sínum í dag og í gær samþykkt nýja grundvallarstefnu bandalagsins, sem unnið hafi verið að síðasta ár. Stefnunni sé ætlað að gera störf NATO markvissari, hagkvæmari og auka samvinnu við alþjóðastofnanir og ríki utan bandalagsins. Framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen, hafi unnið tillögur sínar að nýrri grundvallarstefnu meðal annars á grunni skýrslu sérfræðinganefndar sem skilaði tillögum í maí. Mikið og öflugt samráð hafi verið við öll bandalagsríkin í ferlinu og góð sátt náðst um niðurstöðurnar.

Áherslur Íslands hafi verið endurspeglaðar í texta grundvallarstefnunnar, meðal annars aukin samvinna við borgaralegar alþjóðastofnanir og samstarfsríki. Efni grundvallarstefnunnar hafi verið kynnt utanríkismálanefnd Alþingis af utanríkisráðherra fyrir leiðtogafundinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×