Innlent

Bjartsýnn um Búðarhálsvirkjun

Lægsta boð í vélbúnað Búðarhálsvirkjunar reyndist 85 prósent af kostnaðaráætlun og kveðst forstjóri Landsvirkjunar nú bjartsýnn á að fjármögnun ljúki á næstu vikum og að framkvæmdir hefjist um áramót.

Sex vikur eru frá því tilboð í stærstu byggingarþætti Búðarhálsvirkjunar voru opnuð og í dag var komið að tilboðum í vél- og rafbúnað. Skemmst er frá því að segja að tölurnar úr umslögum bjóðenda glöddu Landsvirkjunarmenn, enda var lægsta boð 1,1 milljarði króna undir kostnaðaráætlun. Það kom frá þýsku fyrirtæki, og var upp á tæpa 6,3 milljarða króna.

Búðarhálsvirkjun er sú stórframkvæmd í landinu sem nú um stundir virðist eiga mesta möguleika á að komast á fulla ferð á næstunni. Vandinn er bara sá að Landsvirkjun hefur ekki ennþá fengið neinn banka til að lána sér fyrir verkinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, viðurkennir að Icesave-deilan sé almennt að trufla alla fjármögnun fyrirtækisins. Markmiðið sé þó að klára fjármögnun Búðarhálsvirkjunar á næstu einum til tveimur mánuðum og kveðst hann bjartsýnn á að það takist og að framkvæmdir geti hafist um áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×