Innlent

Greina þarfir annarra með geðraskanir

Norskir frumkvöðlar á geðheilbrigðissviði, Dagfinn Björgen, Heidi Wester­lund og Olav K. Johansen gengu til liðs við Íslendinga á málþingi um geðraskanir. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Norskir frumkvöðlar á geðheilbrigðissviði, Dagfinn Björgen, Heidi Wester­lund og Olav K. Johansen gengu til liðs við Íslendinga á málþingi um geðraskanir. Fréttablaðið/Vilhelm
Einstaklingar með geðraskanir geta skipt lykilmáli í að greina þarfir og þjónustu við aðra sem eins er ástatt um.

Ný aðferðafræði í rannsóknum nýtir sér reynslu fólks með geðraskanir til að taka viðtöl og greina viðhorf þeirra. Þessi nálgun, „Notandi spyr notanda“, er að norskri fyrirmynd og var rædd á málþingi í Reykjavík nýverið.

Norðmaðurinn Dagfinn Björgen er einn af frumkvöðlum þessarar aðferðafræði og segir hann í samtali við Fréttablaðið að margt hafi komið í ljós með þessari aðferð.

„Eitt af því helsta var það að fólk með geðraskanir getur gefið góða og rökrétta mynd af því hvernig þjónusta við það er framkvæmd og hvernig má bæta hana,“ segir Björgen.

Elín Ebba Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs og dósent við Háskólann á Akureyri, hefur verið frumkvöðull í þessari aðferðafræði hér á Íslandi. Í nýútkominni skýrslu hóps sem hún leiðir, kemur fram að úrtakshópurinn skiptist í tvo meginhópa. Annar hópurinn hefur sætt sig við geðröskun sína og hömlur, en aðrir vilja komast aftur út í samfélagið af fullum krafti.

Elín Ebba segir að lykilatriði í því sé að gera fólki kleift að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

„Þetta er bara ein aðferð til að koma fólki aftur í hringiðuna og þetta er öflug aðferð, vegna þess að um leið og fólk uppgötvar að það er að gera eitthvert gagn svínvirkar það í bata.“

Jón Ari Arason vann að fyrstu rannsókninni af þessari gerð árið 2004 og er kominn aftur að verkefninu. Hann segir þessa vinnu stóran hluta af sínum eigin bata.

„Ég var búinn að átta mig á því að ég hefði hæfileika en ég var ekki farinn að þora að nota þá fyrr en þarna.“

Jón Ari segir að hópurinn sem vann þá rannsókn hafi gert tvíþætt gagn, í fyrsta lagi með því að leggja fram tillögur byggðar á viðtölum við sjúklinga, „svo komum við líka inn sem fyrirmyndir þar sem fólk sér okkur, sem vorum áður í sömu stöðu og þau, komin töluvert lengra í bataferlinu og sér að þetta er hægt.“

Jón Ari segir að nokkuð hafi unnist í geðheilbrigðismálum í kjölfar vinnu þeirra, en betur megi ef duga skuli.thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×