Innlent

Börn Gunnars í Krossinum: Telja ásakanirnar uppspuna

Börn Gunnars í Krossinum hafa sent frá sér yfirlýsingu.
Börn Gunnars í Krossinum hafa sent frá sér yfirlýsingu.
Börn Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja að vegið sé að æru og heiðri föður þeirra með óvægnum hætti. „Pabbi okkar er kærleiksríkur maður sem vill öllum vel." Þau segja jafnframt vita að faðir þeirra sé saklaus og biðla til fólks að fara varlega í sleggjudóma. „Þessi ásökun á pabba okkar er skelfileg því að bæði okkur og honum þykir það mesta viðurstyggð þegar brotið er á ungum stúlkum eða börnum."

Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér fyrir neðan:

Við undirrituð, börn Gunnar Þorsteinssonar í Krossinum, viljum senda frá okkur þessa yfirlýsingu til fjölmiðla á þessum erfiða tíma í okkar lífi. Við erum öll full af hryggð því undanfarnir dagar hafa verið okkur óbærilega sárir. Því biðjum við fjölmiðla um að sýna okkur skilning og nægt svigrúm til að ná áttum. Einnig biðjum við ykkur að birta ekki myndir af okkur vegna hræðslu um að börn okkar verði einnig fyrir aðkasti.

Maður getur varla orða bundist yfir þessum alvarlegu ásökunum á hendur föður okkar sem við teljum að séu uppspuni frá rótum. Með óvægnum hætti er vegið að æru hans og heiðri. Pabbi okkar er kærleiksríkur maður sem vill öllum vel. Hann gekk mágkonum sínum í föðurstað og hefur reynst þeim traustur sem klettur. Ávallt hefur faðmur hans verið opinn fyrir þá sem eiga við sárt að binda og því erum við orðlaus yfir þessum ásökunum. Við vitum öll að pabbi okkar er saklaus og biðlum til fólks að fara varlega í sleggjudóma. Þessi ásökun á pabba okkar er skelfileg því að bæði okkur og honum þykir það mesta viðurstyggð þegar brotið er á ungum stúlkum eða börnum.

Megi Guð mæta og fyrirgefa þeim sem standa að svona herskári ófrægingarherferð.

Virðingarfyllst:

Guðni Gunnarsson

Sigurbjörg Gunnarsdóttir

Jóhanna Gunnarsdóttir

Gunnar Ingi Gunnarsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×