Innlent

Segir skattaumhverfi góðgerðarfélaga vera erfitt hér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eygló Harðardóttir lagði fram breytingatillögu um að skattaumhverfi góðgerðarfélaga yrði breytt. Mynd/ GVA.
Eygló Harðardóttir lagði fram breytingatillögu um að skattaumhverfi góðgerðarfélaga yrði breytt. Mynd/ GVA.
Skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka á borð við góðgerða- og menningarfélaga er mun óhagstæðara hér á landi en í nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlantshafsins. Þetta segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Máli sínu til stuðnings bendir hún á skýrslu sem hafi verið unnin um þetta hér á landi.

Eygló lagði fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár, sem samþykkt var í liðinni viku, um að dánargjafir til slíkra félaga yrðu undanþegnar erfðafjárskatti. Tilefnið er það að til stendur að hækka erfðafjárskatt úr 5% í 10% á næsta ári.

„Það er tiltölulega algengt að almannaheillafélögum séu ánafnaðar gjafir úr dánarbúum. Þetta er tillaga sem er samhljóða tillögu sem Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson lögðu fram á sínum tíma," segir Eygló. Hún segir að tveir af þessum þremur þingmönnum hafi núna verið í ríkisstjórn í um þrjú ár og hafi ekki komið í gegn þessum breytingum. Hún furðar sig því á að tillagan hafi verið felld núna. Hún furðar sig líka á því að önnur tillaga sem hún lagði fram, ásamt Birki J. Jónssyni samflokksmanni sínum, um að þeir einstaklingar sem gefa til líknarfélaga njóti skattalegra ívilnana, hafi verið felld. „Það hefði sýnt að við hefðum anda jólanna í huga ef við hefðum samþykkt þetta," segir Eygló.

Þau félagasamtök sem hefðu notið góðs af breytingartillögum Eyglóar eru góðgerða- og líknarfélög, félög á sviði vísinda- og menningarstarfsemi og trúfélög. Eygló segir að þörfin fyrir aðstoð þessa frjálsu félagasamtaka haf aldrei verið meiri en einmitt núna. Á sama tíma hafi framlög frá ríkinu, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum dregist saman vegna erfiðs efnahagsástands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×