Erlent

Hryllilegur morðvettvangur var leikmynd í hryllingsmynd

Corey Haim á sínum yngri árum með félaga sínum og nafna Corey Feldman.
Corey Haim á sínum yngri árum með félaga sínum og nafna Corey Feldman.

Lögreglan í Pittsburgh í Bandaríkjunum var kölluð að hóteli í borginni en þar virtist hafa verið framið hrottalegt morð. Í einu herbergjanna voru blóðslettur upp um alla veggi og höfuðleður lá á gólfinu. Málið var stórt og lögreglustjóri borgarinnar mætti á vettvang og lýsti því fyrir blaðamönnum að um væri að ræða hræðilegustu aðkomu sem hann hefði séð á sínum langa ferli sem spannaði 35 ár.

Bestu rannsóknarlögreglumenn borgarinnar höfðu eytt átta klukkutímum í rannsóknina þegar hið sanna kom í ljós: Um var að ræða leikmynd í hryllingsmynd sem hafði verið tekin á hótelinu fyrir heilum tveimur árum og unglingastjarnan Corey Haim, sem lést fyrr á árinu, lék í.

Þegar eigandi hótelsins var spurður hvers vegna herbergið hefði ekki verið þrifið í tvö ár svaraði hann því til að hann hafi alltaf búist við því að kvikmyndatökuliðið myndi snúa aftur til þess að ljúka tökum.

Þótt myndin hafi greinilega verið nokkuð vel gerð virðist hún ekki hafa slegið í gegn og fór raunar beint á DVD.

Ræman heitir New Terminal Hotel og fær reyndar sæmilega dóma á IMDB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×