Innlent

Stal 5000 krónum úr bíl í dag og bíl í síðustu viku

Sauðárkrókur.
Sauðárkrókur. Mynd/Ásgeir Heiðar
Eigandi bíls á Sauðárkróki hringdi í lögregluna í dag en nágranni mannsins hafði sagt honum frá manni sem var að gramsa í bílnum hans. Þegar eigandinn ætlaði út að spyrja manninn hvaða erindi hann ætti í bílinn var hann horfinn á braut. Nágranninn hafði þá fylgst með því hvaða leið hann labbaði og eigandinn fór þá á eftir honum.

Þegar hann kom að manninum og spurði hvað hann hafi verið að gera í bílnum hans fékk hann „óþægilegt viðmót", eins og lögregla orðar það. Hann snéri því við og fór að svipast fyrir um í bíl sínum og kom þá í ljós að maðurinn hafði tekið fimm þúsund krónur úr bílnum.

Eigandinn ætlaði þá að fara aftur og ræða við manninn en þá var hann horfinn. Í þann mund mætti lögreglan á staðinn og eftir stutta leit fannst maðurinn og var handtekinn.

Um var að ræða góðkunningja lögreglunnar á Sauðárkróki en maðurinn er einungis 18 ára gamall. Hann viðurkenndi verknaðinn og skilaði fimm þúsund krónunum. Hann á yfir höfði sér kæru vegna þjófnaðar.

Átján ára gamli maðurinn kom einnig við sögu lögreglunnar í síðustu viku. Þá hafði hann stolið bíl í slagtogi við annan mann og fannst hann bíllinn nokkrum dögum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×