Innlent

Stjórnlagaþingmenn hittust í Neskirkju: Óánægja með fundarstaðinn

Stjórnlagaþingmenn hittust til skrafs og ráðagerða í kjallara Neskirkju seinni partinn í gær.

„Þetta var fullkomlega óformlega fundur og það voru ekki nema sautján mættir. Þetta var bara lausbeislað spjall sem gekk meira út á að kynnast hvert öðru en að taka ákvarðanir eða ræða vinnubrögð," segir Illugi Jökulsson stjórnlagaþingmaður.

„Við vorum aðeins að ræða hvaða skoðun menn hefðu á þessum reglum sem okkur er ætlað að starfa eftir en annars var þetta bara létt og skemmtilegt. Það fór afskaplega vel á með okkur og mér sýndist allir vera ofboðslega áhugasamir um að þetta takist vel en endi ekki í froðusnakki og moði."

Séra Örn Bárður Jónsson, stjórnlagaþingmaður og prestur í Neskirkju, bauð salinn til afnota. „Einhverjir ömuðust við því að hittast í húsnæði kirkju þar sem við eigum meðal annars að ræða aðskilnað ríkis og kirkju," segir Illugi. „Mér fannst ekki ástæða til að taka það neitt hátíðlega og ég held að enginn hafi beinlínis ekki mætt út af því." - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×