Innlent

Borgin segir upp leikskólastjórum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar.
Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar.

Smærri leikskólar í Reykjavík verða sameinaðir og leikskólastjórum verður sagt upp, samkvæmt tillögum um hagræðingu á leikskólastiginu sem liggja fyrir.

Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, fundaði með leikskólastjórum í Reykjavík í gær þar sem hún kynnti hugmyndir um hagræðingu á leikskólastiginu. Til stendur að sameina yfirstjórn leikskóla í Reykjavík, en leikskólar í borginni eru alls 78 talsins og því er ljóst að tækifæri til hagræðingar og sameiningar eru til staðar.

Leikskólastjórar sem fréttastofa ræddi við segja að þarna hafi verið kynntar tillögur um sameiningu leikskóla í Reykjavík. Meðal þess sem verið er að skoða er sameining minni leikskóla, þ.e. tveggja og þriggja deilda leikskóla. Leikskólastjórum- og aðstoðarleikskólastjórum í þeim leikskólum sem verða sameinaðir verði sagt upp og stöður yfir sameinuðum leikskólum auglýstar. Þar með verði öllum leikskólastjórum sem misstu vinnuna gefinn kostur á að sækja um þær, en hin opinbera stefna á leikskólastiginu virðist frekari sameining í hagræðingarskyni.

Oddný Sturludóttir segir að unnið hafi verið eftir þessum tillögum í nokkurn tíma. T.d. hafi sex leikskólar verið sameinaðir í þrjá á þessu ári og þessari vinnu verði haldið áfram. Nýr starfshópur sem Oddný fer fyrir fer nú úr einu hverfi í annað og greinir tækifæri til sameiningar og hagræðingar á leikskólastiginu og er stefnt að því að ljúka þessari vinnu fyrir 1. febrúar næstkomandi. Oddný segir að ekki lægi fyrir hvaða leikskólar verði sameinaðir á næstunni, enda sé þetta á undirbúningsstigi.

Leikskólastjórar sem fréttastofa ræddi við í morgun sögðu að margir væru uggandi yfir þessum hagræðingartillögum af ótta við að missa starf sitt. Mikil eftirspurn eftir leikskólaplássum, en alls vantar í dag 450 leikskólapláss fyrir reykvísk börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×