Innlent

Norska stjórnin vill öll spil upp á borðið

Öflug öryggisgæsla er starfrækt í sendiráðinu hér á landi rétt eins og í öðrum löndum. fréttablaðið/Vilhelm
Öflug öryggisgæsla er starfrækt í sendiráðinu hér á landi rétt eins og í öðrum löndum. fréttablaðið/Vilhelm
Bandaríska sendiráðið í Osló hefur starfrækt leyniþjónustudeild, sem hefur safnað upplýsingum um hundruð norskra ríkisborgara. Meðal þeirra sem starfað hafa fyrir deildina eru fimmtán til tuttugu Norðmenn, þar á meðal fyrrverandi norskir lögreglumenn á eftirlaunum.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 skýrði frá þessu í gær. Norsk stjórnvöld hafa gert athugasemdir og krafist skýringa frá bandarískum stjórnvöldum. Jens Stoltenberg forsætisráðherra krefst þess að öll spil verði lögð á borðið í þessu máli. Hann segist ekki hafa vitað neitt af þessu fyrr en fjölmiðlar skýrðu frá málinu í gær.

Í sendiráðum Bandaríkjanna eru starfræktar öryggisskrifsstofur, sem sjá meðal annars um öryggisgæslu við sendiráðið. Innan þeirra eru starfrækt teymi, svokölluð Surveillance Detective Units, sem hafa það hlutverk að fylgjast með grunsamlegum mannaferðum við sendiráðið og skrá upplýsingar um einstaklinga sem virðast vera að fylgjast með sendiráðinu.

Upplýsingar af þessu tagi hafa á seinni árum verið geymdar í SIMAS, gagnabanka bandarískra stjórnvalda sem ætlaður er til að koma í veg fyrir hryðjuverk og glæpi, meðal annars gegn sendiráðum og starfsfólki þess.

Í þennan gagnabanka eru skráðar upplýsingar á borð við nafn, aldur, kyn, hæð, þyngd, augnlit, háralit, heimilisfang, símanúmer, nöfn foreldra, ríkisfang og líkamleg sérkenni.

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík vill hvorki neita því né játa að hér á landi sé safnað upplýsingum í gagnabanka af þessu tagi.

„Bandaríkjastjórn gerir sér grein fyrir því að sendiskrifstofur okkar víða um heim eru hugsanleg skotmörk,“ segir Laura Gritz, talsmaður sendiráðsins í Reykjavík. „Við eigum í samstarfi við stjórnvöld gistiríkja um að gera allt sem við getum til að vernda sendifulltrúa okkar og starfsfólk, þar á meðal innlenda starfsmenn á hverjum stað,“ segir hún en tekur fram: „Við gefum ekki nákvæmar upplýsingar um tilteknar öryggisráðstafanir.“

„Mér er ekki kunnugt um neitt slíkt njósna- eða öryggissamstarf hér á landi,“ segir Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra. „En ef svo er þá er það eitthvað sem ég tel að ég sem dómsmálaráðherra ætti að vita um, og þá ætti að upplýsa mig um slíkt, og það hefur ekki verið gert.“

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×