Erlent

Ísland hefur fjölmargt að bjóða ESB

Framkvæmdastjórn ESB er ánægð með gengið í stækkunarferlinu en áréttar að enn sé margt óunnið.
NordicPhotos/Getty
Framkvæmdastjórn ESB er ánægð með gengið í stækkunarferlinu en áréttar að enn sé margt óunnið. NordicPhotos/Getty
Aðild Íslands að Evrópu­sambandinu (ESB) gæti komið sér vel fyrir sambandið, sérstaklega hvað varðar aðkomu að norðurheimskautssvæðinu. Þetta verður meðal þess sem mun koma fram í árlegri áfangaskýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kemur út í næstu viku, en kaflar úr henni hafa þegar lekið í fjölmiðla.

Ísland er talið hafa komið mun betur reiðubúið að samningaborðinu heldur en Balkanlöndin sem áður tilheyrðu Júgóslavíu og Tyrkland. Þó sé viðbúið að erfitt geti reynst að finna lausn á málum tengdum fiskveiðum og Icesave.

Framkvæmdastjórnin hefur meiri áhyggjur af Balkanlöndunum í hópi umsækjenda. Meðal annars hafi nokkuð hægt á umbótum í ríkjunum og víða sé vegið að tjáningarfrelsi og frjálsri fjölmiðlun. Til dæmis eru enn deilur um stjórnarfar í Bosníu-Hersegóvínu, Grikkir eru ósáttir við nafn Makedóníu og óvissa er enn um stöðu Kosovo.

Í skýrslunni eru einnig tíundaðar áhyggjur af tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla í Balkanríkjunum. Þar viðgengst enn ofbeldi gegn blaðamönnum og sjálfstæði ritstjórna er víða ógnað af pólitískum öflum.

Króatar þykja þó hafa náð töluverðum árangri á vegferð sinni að ESB-aðild og ef þeir ná að semja um fyrirkomulag á skipasmíðaiðnaði sínum og auka sjálfstæði dómstóla geta þeir verið vongóðir um að komast inn árið 2012.

Framkvæmdastjórnin er þrátt fyrir allt mjög jákvæð fyrir frekari stækkun ESB og tíundar kosti þess að fjölga meðlimum. Með auknum krafti í stækkunarferlinu og fleiri meðlimum styrkist staða sambandsins á alþjóðlegum vettvangi. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×