Innlent

Fjölmargir vilja hjálpa Tryggva Jóni

Tryggvi Jón Jónatansson fæddist alheilbrigður fyrir fimmtán árum, nú er hann blindur, heyrnarlaus.
Tryggvi Jón Jónatansson fæddist alheilbrigður fyrir fimmtán árum, nú er hann blindur, heyrnarlaus.

Hópur manna og fyrirtækja brást skjótt við fregnum af vandræðum Tryggva Jóns, fimmtán ára drengs í hjólastól á Akureyri, og vilja freista þess að breyta heimili hans þannig að hann geti áfram búið hjá fjölskyldu sinni.

Tryggvi Jón Jónatansson fæddist alheilbrigður fyrir fimmtán árum, nú er hann blindur, heyrnarlaus og í ágúst var jafnvægisleysið orðið slíkt að hann hefur þurft að nota hjólastól til að komast á milli herbergja. Síðan hefur hann ekki komist í bað heima hjá sér. Fjöldi manna brást skjótt við fréttum okkar í gær um vandræði Tryggva Jóns og þreifingar um að aðstoða fjölskylduna fóru af stað strax í gærkvöldi.

Á styrktarsíðu, sem sjúkranuddari Tryggva stofnaði á Facebook má sjá skilaboð frá fólki sem býður fram krafta sína, einn skrifar þar í gærkvöldi: „Auðvitað styrkir maður þessar breytingar, ef ykkur vantar vinnumann eftir vinnu hjá mér mun ég glaður hjálpa." Og annar segir: „Verið í bandi við mig það er aldrei að vita hvort ég geti smíðað eitthvað fyrir ykkur og hjálpað til."

Fáránlegt gat í kerfinu

Fram kom í fréttinni í gærkvöldi að Akureyrarbær vildi ekki styrkja breytingarnar. Oddur Helgi Halldórsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, sagði hins vegar í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að fáránlegt gat væri í kerfinu - sem þýddi að ef fólk væri í eigin húsnæði og ekki á vonarvöl fengi það ekki aðstoð. Oddur sagði jafnframt að unnið væri að því innan bæjarkerfisins að breyta reglum svo hægt verði að koma til móts við fjölskyldur eins og fjölskyldu Tryggva Jóns.

Fjölskylda Tryggva Jóns vill breikka dyraop og breyta baðherberginu - svo drengurinn komist í bað heima hjá sér og á milli herbergja í nægilega stórum hjólastól.




Tengdar fréttir

„Þetta getur komið fyrir hvern sem er"

Fimmtán ára drengur sem misst nær alla sjón og heyrn og þarf auk þess að notast við hjólastól vill ekki að fólk tali fyrir sig ef hann hefur ekki beðið um aðstoð að fyrra bragði. „Þetta getur komið fyrir hvern sem er," segir Tryggvi Jón Jónatansson en rætt var við hann og móður hans í þættinum Ísland í dag fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×