Innlent

ORF leyft að rækta erfðabreytt bygg úti

Björn Lárus Örvar framkvæmdastjóri ORF.
Björn Lárus Örvar framkvæmdastjóri ORF.

Umhverfismál Umhverfisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita ORF Líftækni hf. leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Umhverfisstofnun veitti leyfið í júní í fyrra en sjö aðilar kærðu ákvörðunina. Sex kærum var vísað frá en ráðuneytið tók til meðferðar kæru VOR (Verndun og ræktun - félag framleiðenda í lífrænum búskap).

Ráðuneytið fékk umsagnir frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur. Fjórar meginástæður voru til grundvallar kærunni hjá VOR.

VOR taldi að vísindalega réttlætingu fyrir sleppingu erfðabreyttra lífvera hefði skort og Umhverfisstofnun hefði átt að kanna betur hvaða vísindalegu gagna ætti að afla með henni.

Ráðuneytið fellst ekki á að skortur á vísindalegri réttlætingu geti talist ágalli við málsmeðferð Umhverfisstofnunar, þar sem hlutverk hennar sé að ganga úr skugga um að skilyrði laga séu uppfyllt. Samkvæmt lögunum er aðeins veitt leyfi til sleppingar á erfðabreyttum lífverum ef ekki er talin hætta á skaðsemi og það sé siðferðilega réttlætanlegt.

Einnig taldi VOR að Umhverfis­stofnun hefði sýnt alvarlegt gáleysi með því að leggja að jöfnu erfðabreyttar lyfjaplöntur og fóður- og matvælaplöntur. Alvarlegir ágallar hefðu verið á málsmeðferðinni. Það tekur ráðuneytið ekki undir. Ákvörðunin hafi verið í samræmi við lög og reglur.

Þá taldi VOR fjóra nefndarmenn í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur hafa verið vanhæfa vegna tengsla starfa þeirra við ORF Líftækni hf. Ráðuneytið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji þær ásakanir.

Að lokum taldi VOR ákvörðun Umhverfisstofnunar ekki samrýmast grundvallarreglu um sjálfbæra þróun eða varúðarreglu. Þá töldu samtökin að vanrækt hefði verið að meta efnahagsleg og samfélagsleg áhrif ræktunarinnar sem og siðferðileg álitamál. Ráðuneytið telur að við útgáfu leyfisins hafi farið fram fullnægjandi mat og ákvarðanataka verið málefnaleg og í samræmi við reglur.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×