Innlent

Þingmenn styðja níumenningana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mörður Árnason er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ Valli.
Mörður Árnason er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ Valli.
Þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vilja að Alþingi gefi út sérstaka yfirlýsingu um að atburðirnir þann 8. desember 2008, þegar meint árás á Alþingi átti sér stað, hafi ekki verið árás á Alþingi í skilningi almennra hegningarlaga.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um slíka yfirlýsingu þingsins. Þar segir að Alþingi telji varhugavert að túlka lagaákvæði um sérstaka vernd þingsins með þeim hætti að tjáningarfrelsi stafi hætta af og gengið sé á mikilsverðan rétt borgaranna til að safnast saman til mótmæla eða annars konar þátttöku í stjórnmálum.

Mál níumenninganna sem sakaðir eru um að hafa ráðist inn í Alþingishúsið þennan umdeilda dag er nú fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verði fólkið fundið sekt um árás gegn Alþingi getur það átt yfir höfði sér allt að ævilöngu fangelsi.

Þingmennirnir sem að standa að baki tillögunni segjast telja að vegna rannsóknarbeiðni sem skrifstofustjóri Alþingis sendi lögreglunni skömmu eftir atburðina, þar sem vísað er til þessarar greinar, auk atriða í svörum forseta Alþingis um málið á vettvangi þingsins eða í almennri umræðu, hafi Alþingi sem slíkt haft af málinu afskipti sem jafngildi því að þingið telji að um hafi að vera árás á Alþingi. Þingmennirnir telja því eðlilegt að álykta um árásina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×