Innlent

Telur niðurskurðinn fela í sér gróf mannréttindabrot

Fyrir utan Alþingi fyrr í dag.
Fyrir utan Alþingi fyrr í dag. Mynd/Anton Brink
Hópur Sunnlendinga afhentu Guðbjarti Hannessyni heilbrigðisráðherra, í dag lista með mótmælum íbúa á Suðurlandi gegn áformuðum niðurskurði á fjárframlögum til heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu. Við sama tækifæri voru ráðherra einnig afhentir undirskriftalistar úr fleiri heilbrigðisumdæmum. Formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sagði niðurskurðinn fela í sér gróf mannréttindabrot.

Alls skrifaði 10.071 íbúi nafn sitt á mótmælalistana á Suðurlandi.

Sunnlendingar fjölmenntu að Alþingishúsinu í rútum og einkabílum og fór gamall sjúkrabíll fyrir lestinni sem tákn um að með boðuðum niðurskurði sé verið að færa heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi 60 ár aftur í tímann, að því er fram kemur í tilkynningu. Undirskriftirnar voru færðar ráðherra á sjúkrabörum og var heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn og öðrum alþingismönnum jafnframt flutt drápa sem var samin og flutt af Sigurgeiri Hilmari Friðþjófssyni.

Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, ávarpaði heilbrigðisráðherra fyrir hönd mótmælenda. Elfa Dögg sagði m.a. að ef boðaður niðurskurður næði fram að ganga fæli hann í sér gróf mannréttindabrot gagnvart íbúum landsbyggðarinnar. Skoraði hún á ríkisstjórnina að standa með sjúkrahúsunum á landsbyggðinni og tryggja að íbúar þar fengju áfram að njóta þeirra grundvallarmannréttinda sem lög kveða á um.


Tengdar fréttir

Fjöldi mótmælenda af Suðurlandi afhentu undirskriftir

Fjöldi fólks af Suðurlandi mótmælti fyrir utan Alþingi í dag og afhenti meðal annars Guðbjarti Hannessyni, félagsmála- og tryggingamálaráðherra, blóm og undirskriftir í tilefni mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×