Erlent

Bandaríkin jafna við Rússa í Afganistan

Óli Tynes skrifar
Bandarískir hermenn í Afganistan.
Bandarískir hermenn í Afganistan. MYND/AP

Bandarískt herlið hefur í dag verið í Afganistan í níu ár og 50 daga. Það er nákvæmlega jafn lengi og Sovéski herinn hélt þar út á árunum 1979 til 1989. Þegar Rússar réðust inn í Afganistan var það í þeim yfirlýsta tilgangi að gera landið að nútíma sósíalistaríki. Það mistókst. Rússar fóru heim með skottið á milli lappanna.

Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan til þess að uppræta talibana og hafa hendur í hári Osama bin Ladens. Hvorugt hefur tekist. Bandaríkin gerðu stórfelld herfræðileg mistök með því að líta af Afganstan og ráðast inn í Írak. Það gerði talibönum kleift að rísa tvíelfdir upp aftur og ná stjórn á stórum hlutum landsins.

Bandaríkin gerðu svo ekki minni mistök í Írak þegar þeir leystu upp íraska herinn og stjórnsýslukerfið. Þeir höfðu ekki einusinni fyrir því af afvopna hermennina. Það er því til Kalasnikov riffill á hverju heimili, tveir á þeim stöndugri. Bandamenn höfðu hvergi nærri nógu marga hermenn í Írak til þess að sinna bæði nauðsynlegri uppbyggingu og öryggisgæslu.

Það er því langt í frið í báðum þessum löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×