Innlent

Vonast eftir 15 milljarða loðnuvertíð

Fyrstu loðnunni á þessari vertíð var landað í Neskaupstað í dag. Bjartsýni ríkir um framhaldið og vonast menn til að loðnan skili yfir fimmtán milljörðum króna í þjóðarbúið í vetur.

Það voru skipverjar á Berki NK sem lönduðu fyrstu loðnunni en þessar myndir tók Jón Guðmundsson þegar verið var að landa 430 tonnum úr skipinu á Norðfirði í dag. Sjómennirnir segja loðnuna mjög fallega en hún flæddi beint úr skipinu inn í flokkunarvélar Síldarvinnslunnar.

Framkvæmdastjórinn, Gunnþór Ingvason, býst við að fjórðungur farmsins fari í vinnslu til manneldis. Meginhlutinn fer til lýsis og mjölframleiðslu þar sem hátt verð fæst fyrir þær afurðir um þessar mundir. Þetta er í fyrsta sinn i sex ár sem loðnu er landað fyrir jól í Neskaupstað og segir Gunnþór að þessi byrjun vertíðarinnar hafi mikil og góð áhrif fyrir samfélagið fyrir austan.

Vopnfirðingar geta einnig farið að bretta upp ermar því Grandaskipið Ingunn er væntanlegt þangað í kvöld með 800 tonna farm. Þegar útgefinn byrjunarkvóti er ávísun á sjö til átta milljarða króna útflutningsverðmæti, að sögn Gunnþórs, en hann segir menn binda vonir við að loðnuvertíðin að þessu sinni gefi tvöfalt meira en það í þjóðarbúið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×