Innlent

Smokkurinn má ekki vera feimnismál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Auglýsingin fræga.
Auglýsingin fræga.
Til stendur að endurgera þekkta smokkaauglýsingu sem vakti mikla athygli fyrir 24 árum síðan. Það eru félagasamtökin Smokkur -sjálfsögð skynsemi og Ástráður félag læknanema sem standa að auglýsingunni ásamt Íslensku auglýsingastofunni. Smokkaherferðin sem gekk undir yfirskriftinni „Smokkur má ekki vera feimnismál" árið 1986 verður þannig endurvakin.

100 kunnir Íslendingar hafa samþykkt að taka þátt í auglýsingunni. „Þetta er sambland af hluta af fólkinu sem var á gamla posternum og svo unga fólkið okkar sem er fyrirmyndir núna," segir Jón Þór Þorleifsson, frá samtökunum Smokkur - sjálfsögð skynsemi. Hann segir að verið sé að vinna að því að taka myndir af fólkinu núna en svo verði auglýsingarnar birtar í febrúar.

Í hópi þess unga fólks sem tekur þátt eru Anna Svava Knútsdóttir leikkona og Vilhjálmur Davíðsson sem var á dögunum valinn Herra hinsegin. „Svo á ég von á Möggu Mack og Auði Jónsdóttur," segir Jón Þór. Að auki er þarna sjónvarpsstjarnan Vignir Rafn Valþórsson sem er áhorfendum Stöðvar 2 að góðu kunnur úr þáttaröðinni Hlemmavideo. „Það er mjög gaman að segja frá því að það voru allir til í þetta sem við hringdum í," segir Jón Þór.

Aðstandendur auglýsingarinnar segja að tíðni klamydíu sé nú hæst á Íslandi af nágrannalöndum okkar og hafi 16 Íslendingar smitast af HIV það sem af er ári. Þessi þróun sé uggvænleg og mikil þörf á að hvetja alla - konur og karla á öllum aldri til þess að nota smokkinn. Líkt og árið 1986 sé enn þörf á að minna á að „smokkurinn má ekki vera ekki vera feimnismál".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×