Innlent

Júlíus Vífill safnaði mestu fyrir prófkjörið

Erla Hlynsdóttir skrifar
Af þeim sem þegar hafa skilað kostnaðaryfirliti safnaði Júlíus Vífill flestum styrkjum fyrir sveitastjórnarkosningarnar
Af þeim sem þegar hafa skilað kostnaðaryfirliti safnaði Júlíus Vífill flestum styrkjum fyrir sveitastjórnarkosningarnar

Júlíus Vífill Ingvarsson, fékk tæpar tvær milljónir króna í styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. Júlíus Vífill fékk 300 þúsund krónur frá Lýsi, 250 þúsund frá Mjólkurfélagi Reykjavíkur og 200 þúsund frá Iceland Excursions Allrahanda. Þá fékk hann styrki frá Steypustáli, Mata, John Lindsay, Gómi, Lindberg, HB Granda, Olíuverslun Íslands og Brimi. Hann fékk einnig bein fjárframlög frá tveimur einstaklingum og lagði sjálfur fram 175 þúsund krónur.

Af þeim sem þegar hafa skilað kostnaðaruppgjöri til Ríkisendurskoðunar fékk Júlíus Vífill hæstu styrkina. Fimm hafa skilað slíku uppgjöri. Auk Júlíusar Vífils eru það Gísli Marteinn Baldursson, Geir Sveinsson, Oddný Sturludóttir og Björk Vilhelmsdóttir.

210 frambjóðendur hafa skilað inn yfirlýsingu um að þeirra kostnaður var ekki umfram 300 þúsund krónur. Athygli vekur að stærsti hluti sjálfstæðismanna hefur ekki skilað inn gögnum.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fékk samtals 1,6 milljón króna styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar, að því er kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar.

Meðal þeirra sem styrktu Gísla Martein voru Ísfélag Vestmannaeyja sem styrkti hann um 300 þúsund krónur, Lýsi styrkti hann um sömu upphæð Brim um 100 þúsund krónur og N1 um sömu upphæð.

Hann fékk einnig styrki frá Klasa, Machinery, Miklatorgi og Skeljungi. Þá fékk Gísli Marteinn bein fjárframlög frá þremur einstaklingum.

Geir Sveinsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fékk rúma 1,2 milljón í styrki. Hæsti styrkurinn sem hann fékk voru 300 þúsund krónur frá Í grjótinu. Þá fékk hann 200 þúsund krónur frá Ambos og 150 þúsund frá Báshyl. Geir fékk einnig styrki frá Kleos, Burst, GLF, Málningarvörum og Keiluhöllinni, auk beinna fjárframlaga frá tveimur einstaklingum.

Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fékk alls 385 þúsund krónur í styrki fyrir sveitastjórnarkosningarnar. Hún fékk samtals 335 þúsund í bein fjárframlög frá 25 einstaklingum. Auk þess styrkti Lýsi hana um 50 þúsund krónur. Sjálf lagði Oddný fram 115 þúsund krónur.

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fékk enga styrki samkvæmt kostnaðaryfirliti en lagði sjálf fram 356.343 krónur í kosningabaráttuna, og skilar inn kostnaðaryfirliti þar sem upphæðin er yfir 300 þúsund króna viðmiðinu.

Meirihlutinn enn eftir að skila



Tekið skal fram að meirihluti frambjóðenda hefur ekki skilað gögnum til Ríkisendurskoðunar.

Af samtals 442 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali innan stjórnmálasamtaka í aðdraganda kosninganna hafa aðeins 215 skilað upplýsingum um kostnað sinn til Ríkisendurskoðunar.

Samtals eiga því 227 frambjóðendur enn eftir að skila, eins og þeim er skylt að gera samkvæmt lögum










Tengdar fréttir

Meirihluti frambjóðenda á eftir að skila kostnaðarupplýsingum

Ríkisendurskoðun hefur birt yfirlit um skil frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjöri vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor á kostnaðarupplýsingum til stofnunarinnar. Af samtals 442 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali innan stjórnmálasamtaka í aðdraganda kosninganna hafa aðeins 215 skilað upplýsingum um kostnað sinn til Ríkisendurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×