Innlent

Flutti inn hálft kíló af kattahlandskóki

Amfetamín. Efnið er náskylt amfetamíni en hefur lítið sem ekkert sést hér á landi.
Amfetamín. Efnið er náskylt amfetamíni en hefur lítið sem ekkert sést hér á landi.

Lettneskur karlmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald í héraðsdómi eftir að hafa reynt að smygla til landsins hálfu kílói af fíkniefni sem nefnist methedrone. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem reynt er að smygla til landsins fíkniefnum sem líkur eru á að séu ekki skráð hér sem ólögleg efni.

Maðurinn sem um ræðir var handtekinn við hefðbundið eftirlit tollgæslunnar í Leifsstöð í síðustu viku á leið frá Kaupmannahöfn og var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald í viku. Hann hefur aldrei komið til landsins áður. Nokkrir einstaklingar hafa verið yfirheyrðir vegna málsins en öllum sleppt að því loknu nema umræddum manni.

Fíkniefnið methedrone er náskylt amfetamíni. Farið var að framleiða það árið 1929 en neysla þess komst ekki á skrið fyrr en í kringum árið 2003. Árið 2007 kom í ljós að farið var að auglýsa það til sölu á netinu og hefur neysla þess breiðst mjög hratt út. Heilbrigðisyfirvöld víða um heim brugðust skjótt við og skráðu efnið sem ólöglegt fíkniefni. Dauðsföll eru þekkt erlendis af völdum neyslu á methedrone.

Umrætt fíkniefni hefur lítið sem ekkert sést hér á landi og var ekki skráð sem ólöglegt fíkniefni hér fyrr en 4. október síðastliðinn.

Lögregla telur að það litla sem sést hafi af efninu hér hafi gengið undir heitinu „kattahlandskók“. Sú nafngift er til komin vegna þess að efnið lyktar eins og kattahland. Erlendis er efnið kallað „meow meow“ eða „mjá mjá“ af sömu ástæðu.

Methedrone hefur lítið sést hér, eins og áður sagði. Þó kom upp mál í Leifsstöð fyrir nokkru þar sem það fannst. Óvíst er hverjar málalyktir í því tilviki verða, því efnið var ekki komið á skrá yfir ólögleg fíkniefni hér á landi þegar það kom upp.

Ekki er langt um liðið síðan tveir menn voru ákærðir fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir smygl hingað til lands á tæplega fjórum kílóum af 4-flúoróamfetamíni. Efnið er afleiða amfetamíns. Mennirnir voru báðir sýknaðir, meðal annars vegna þess að efnið var á þeim tíma sem það var flutt inn ekki bannað í reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Ekki þótti einu sinni unnt að sakfella fyrir tilraun til brots. Efnið er komið á bannlista.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×