Innlent

Halda stórfé sem var innheimt í leyfisleysi

Kjartan Eiríksson Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ætlar að reyna til þrautar að endurheimta 78 milljónir króna sem voru lagðar ólöglega á félagið. Fréttablaðið/GVA
Kjartan Eiríksson Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ætlar að reyna til þrautar að endurheimta 78 milljónir króna sem voru lagðar ólöglega á félagið. Fréttablaðið/GVA

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var ranglega látið greiða tæpar 83 milljónir króna í skipulagsgjald vegna bygginga sinna á varnarsvæðinu en fær aðeins rúmar 4 milljónir endurgreiddar vegna þess að kærufrestur var að mestu liðinn.

„Þarna er um að ræða gjaldtöku sem ekki er heimild fyrir. Við munum ræða við þessa aðila um að fá þetta til baka,“ segir Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvelli.

Þróunarfélagið, sem er í eigu ríkisins, yfirtók á annað hundrað byggingar á Keflavíkurflugvelli eftir brotthvarf Bandaríkjahers frá Íslandi. Með því að margar þessara bygginga voru síðan seldar eða leigðar út voru þær skráðar hjá Fasteignaskrá ríkisins. Í framhaldinu lagði Skipulagsstofnun skipulagsgjaldið á og sýslumaður innheimti það. Þessari álagningu var vísað til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í október síðastliðnum.

Úrskurðarnefndin tók undir með Þróunarfélaginu að ekki hafi verið heimilt að leggja gjaldið á þar sem það eigi að innheimta af nýreistum mannvirkjum. Byggingarnar sem um ræðir voru allar reistar fyrir árið 2000 og margar löngu fyrr. „Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteignir á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er álagning skipulagsgjaldsins fór fram,“ segir nefndin.

Það kemur hins vegar Þróunarfélaginu í koll að kærufrestur vegna langflestra bygginganna var liðinn áður en kæra félagsins var sett fram. Þess vegna ógildir nefndin aðeins 4,2 milljóna króna álagningu af 82,7 milljónum sem voru innheimtar í skipulagsgjald. Þróunarfélagið virðist þannig sitja uppi með að hafa greitt 78,4 milljónir í ólöglegt gjald. Kjartan segir þó að vegna þess hvernig í pottinn hafi verið búið muni félagið freista þessa að fá þetta leiðrétt.

„Við sendum inn athugasemd til Skipulagstofnunar í október 2008. Eins og úrskurðarnefndin bendir á þá var okkur ekki leiðbeint þá með það í hvaða ferli málið hefði átt að fara. Ef svo hefði verið hefðum við náttúrlega náð stærsta hlutanum af þessu til baka í gegn um kæru,“ segir Kjartan. „En við munum bara ræða við þá um þetta og heyra tóninn í þeim. Auðvitað er ríkið báðum megin í þessu máli en þetta lýtur að því að hver haldi utan um sitt.“ gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×