Innlent

Sakar fjármálaráðherra um vonda stjórnsýsluhætti

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins sakar fjármálaráðherra um vonda stjórnsýslu, vegna afskipta hans af greiðslu bóta til meðferðarheimilisins Árbótar í andstöðu við Barnaverndarstofu. Ráðherra vísar þessu á bug og segir að um eðlilegt samkomulag hafi verið að ræða.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að gengið hafi verið frá samkomulagi við hjón sem ráku unglingameðferðarheimilið Árbót í Aðaldag 30 milljónir króna í bætur eftir að heimilinu var lokað. En Barnaverndarstofa sagði upp samningi við heimilið eftir að kynferðisbrotamál kom þar upp á síðasta ári. Fréttablaðið segir bæturnar hafa verið greiddar þvert á vilja Barnaverndarstofu og án samráðs við ríkislögmann. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra hafi beitt sér fyrir og gengið frá samkomulaginu. Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði á Alþingi í dag að afgreiðslu málsins vekti furðu, sérstaklega þáttur fjármálaráðherra í málinu.

„Fer hann að því virðist með tölvubréfi nokkuð ákveðið inn á verksvið annars ráðherra og hótar að setja málaflokk í gíslingu og knýr þannig fram niðurstöðu í málinu," segir Ólöf Nordal.

Þarna vísar Ólöf í bréf sem Steingrímur skrifaði Árna Páli vegna málsins í október síðast liðnum. En Steingrímur segir ekkert óeðlilegt við bréfið. Barnaverndarstofa hafi óskað eftir aðkomu félagsmálaráðuneytis að málinu, eftir að ekki tókst að ná sáttum við rekstraraðilana og hafi félagsmálaráðuneytið gengið frá samkomulaginu. Fjármálaráðuneyti og ríkisstjórn hafi síðan samþykkt það.

„Tölvupóstur sá sem ég ritaði í janúar mánuði var hinsvegar vegna þess að við höfðum áhyggjur í af því í fjármálaráðuneytinu að ef illa tækist til í þessu máli gæti orðið um stóraukin viðbótarkostnað að ræða sem vildum þá sjá fagleg rök fyrir áður en lengra væri gengið, og er það ekki það sem þetta snýst um? Að gæta hagsmuna ríkisins í svona málum, ég hélt það," sagði Steingrímur á alþingi í dag.

Ólöf sagði að samkvæmt góðum stjórnsýsluháttum hefði átt að leita álits ríkislögmanns á málinu sem ekki hafi verið gert.

„Ég get ekki með engu móti fallist á það að þessi aðferðafræði sem þarna hefur verið beitt geti fallist undir góða stjórnsýsluþætti," sagði Ólöf Nordal.

Fjármálaráðherra segist einfaldlega með bréfi sínu til félagsmálaráðherra hafa óskað eftir faglegum rökstuðningi fyrir samkomulaginu.

„Það er svo önnur saga hvernig sá einkapóstur milli okkar félagsmálaráðherra, er allt í einu kominn í blöðin að því virðist í gegnum Barnaverndarstofu það er örugglega þeirra framlag til þess að skapa sátt og frið um þennan málaflokk," sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×