Innlent

Íslenskur bakari gerir það gott í Gimli

Birgir Róbertsson með vínarterturnar sem seldust eins og heitar lummur fyrir jólin
Birgir Róbertsson með vínarterturnar sem seldust eins og heitar lummur fyrir jólin Mynd: Winnipeg Free Press
Kleinur, laufabrauð, kransakaka og rúgbrauð úr bakarínu Reykjavik Cafe hafa sannarlega slegið í gegn hjá íbúum Gimli í Manitobafylki í Kanada. Birgir Róbertsson bakari er einn af þeim sem ákvað að leita tækifæranna í nýju landi og flutti til Kanada í júní 2009. Bakaríið opnaði hann í apríl og hafa viðskiptin sannarlega blómstrað.

Rætt er við Birgi í kanadíska vefritinu Winnipeg Free Press og þykir blaðamanni það afar merkilegt að Birgir á að baki fimm ára bakaranám.

Stærsta bakaríið í Gimli lokaði fyrir um tveimur árum og segist Birgir þá hafa séð þarna viðskiptatækifæri.

Þá er bakkelsi Birgis lýst fyrir Kanadabúum sem aldrei hafa bragðað kleinu. „Sumir kalla þær íslenska kleinuhringi," segir Birgir til að skýra málið.

Laufabrauðið er afar framandi og er það sagt vera hringlaga, djúpsteikt og skreytt fuglasporum. Þá kemur fram að skreytingarnar séu gerðar með „laufabraud jarn."

Kanadabúar eru einnig uppfræddir um að fyrir jólin skeri íslensk börn stundum út nöfnin sín og búa til eigin mynstur á laufabrauðin.

Hægt er að skrifa athugasemdir við umfjöllunina og ber fólk þar mikið lof á bakaríið. „Kransakana er fáránlega góð. Þú verður að fara í þetta bakarí ef þú kemur til Gimli!“ segir í einni athugasemdinni.

Umfjöllunina um Reykjavik Cafe í Gimli má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×