Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, samþykkti í gær tillögu sem veitir eftirlitsstofnunum innan ESB umboð til að grípa til aðgerða gegn skortsölu þegar nauðsyn krefur.
Michael Barnier, framkvæmdastjóri innri markaða hjá ESB, sagði á blaðamannafundi í gær skortsölu geta alla jafna stutt við skilvirkni á fjármálamörkuðum. Þegar óróleika gæti líkt og í aðdraganda alþjóðlegu fjármálakreppunnar geti salan hins vegar valdið titringi, jafnvel verðfalli á mörkuðum.
Tillögurnar munu til þess fallnar að auðvelda eftirlitsaðilum að greina áhættuþætti á markaði og verður þeim gefið vald til að takmarka eða banna skortsölu þegar svo ber undir. Barnier taldi þetta geta aukið stöðugleika á fjármálamörkuðum innan ESB í framtíðinni.
Tillagan verður lögð fyrir Evrópuþingið og er gert ráð fyrir að hún taki gildi í júlí árið 2012. - jab