Innlent

Greiða jafnan lægri gjöld en nágrannarnir

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

Þrátt fyrir fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrá Reykjavíkur­borgar segja fulltrúar meirihlutans að borgarbúar greiði jafnan mun lægri skatta og gjöld en gengur og gerist í nágrannasveitar­félögunum.

Í tölum frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar eru ýmsar álögur og gjöld í fjárhags­áætluninni borin saman við helstu nágrannasveitarfélög.

Lóðarleiga og vistun á frístundaheimili eru til dæmis lægst í Reykjavík, og systkinaafsláttur á leikskóla er mun lægri en í öðrum bæjum sem úttektin tekur til.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir þessar tölur tala sínu máli og þar birtist skýr fjölskyldustefna, þótt auðvitað sé aldrei gleðiefni að hækka gjöld.

„Umræðan um gjaldskrárhækkan­irnar hefur verið villandi þar sem mörgum hefur sýnst að um gríðar­lega hækkun sé að ræða, en svo er ekki."

Dagur segir hækkanirnar ekki halda í við verðlagsþróun þar sem gjöldin hafa staðið óbreytt síðustu tvö og hálft ár.

„Svo eiga sum hinna sveitar­félaganna eftir að kynna áætlanir sínar fyrir næsta ár og ég er ekki viss um að þau treysti sér til að fara eins hóflega leið og við." - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×