Innlent

Álfheiður vill svör um eftirlitssveit bandaríska sendiráðsins

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram tíu spurningar til Ögmundar Jónassonar dómsmálaráðherra vegna eftirlitssveitar sem bandaríska sendiráðið viðurkenndi að halda úti í kvöldfréttum RÚV.

Álfheiður óskaði eftir svörum hjá Ögmundi á Alþingi í dag og lofaði hann að kanna málið.

Samkvæmt yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu þá fannst ekkert þar á bæ sem renndi stoðum undir skipulega söfnun upplýsinga um íslenska ríkisborgara.

Álfheiður óskar eftir því að almenningur verði upplýstur um eðli þessarar starfsemi sem felst hugsanlega í því að skrá persónuupplýsingar í SIMAS-gagnagrunn Bandarískra stjórnvalda og hvort tilskilin leyfi hafa verið veitt fyrir því sem og eftirliti með borgurum í þágu erlends ríkis.

Hún hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til dóms- og mannréttindaráðherra vegna mannaferða við Laufásveg og er óskað skriflegra svara:

1. Hversu lengi hefur „eftirlitssveit" á vegum Bandaríkjastjórnar eða sendiráðs Bandaríkjamanna í Reykjavík starfað hér á landi?

2. Hafa stjórnvöld eða lögregluyfirvöld haft vitneskju um starfsemina og þá síðan hvenær?

3. Hversu margir starfsmenn vinna við þessa iðju og hvar eru þeir staðsettir?

4. Hvaða svæði er vaktað?

5. Hvers kyns heimildir hafa verið veittar fyrir þessa starfsemi Bandaríkjamanna, hver veitti heimildina og hvenær?

6. Hafa Bandaríkjamönnum eða starfsmönnum þeirra verið veitt tilskilin leyfi, m.a. Persónuverndar, til að safna upplýsingum um íslenska ríkisborgara og skrá í gagnagrunn sem rekinn er á vegum erlends ríkis?

8. Hvaða reglur gilda um geymslu og eyðingu þeirra gagna sem safnað er á vegum „eftirlitssveitarinnar" og skráð eru í SIMAS-gagnagrunn bandarískra stjórnvalda?

9. Hvernig er eftirliti íslenskra stjórnvalda með þessari starfsemi háttað?

10. Telur dóms- og mannréttindaráðherra að starfsemi sveitarinnar standist lög og að mannréttindi og persónufrelsi íbúa í nágrenni bandaríska sendiráðsins séu virt?


Tengdar fréttir

Ekki kunnugt um njósnir - eftirlitssveit samt starfrækt

Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um að bandaríska sendiráðið njósni um Íslendinga líkt og hefur gerst á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins til Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×