Innlent

Eiginmaðurinn látinn laus

Tollgæslan fann um 300 grömm af kókaíni hjá fólkinu.
Tollgæslan fann um 300 grömm af kókaíni hjá fólkinu.

Karlmaður á fertugsaldri, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna smygls á tæplega þrjú hundruð grömmum af kókaíni var látinn laus í fyrradag, þegar gæsluvarðhald hans rann út.

Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð fyrr í mánuðinum ásamt eiginkonu sinni og fundust fíkniefnin í farangri þeirra.

Hjónin sem um ræðir voru að koma með flugi frá Kaupmannahöfn. Þau eru búsett í Reykjavík og hafa aldrei komið við sögu lögreglu áður. Kókaínið fannst við hefðbundna leit tollgæslu í Leifsstöð. Konunni var sleppt eftir yfirheyrslur en maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. desember.

Skömmu síðar handtók lögreglan á Suðurnesjum karlmann á þrítugsaldri í tengslum við rannsókn málsins. Hann er einnig búsettur í Reykjavík og hefur margoft komið við sögu hjá lögreglu, meðal annars vegna fíkniefnamála.

Síðastnefndi maðurinn var yfirheyrður hjá lögreglu en ákvörðun var tekin um að láta hann lausan að því loknu.

Rannsókn málsins er á lokastigi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.- jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×