Innlent

Flugmenn Icelandair mokuðu snjóinn burt

Dorrit Moussaieff forsetafrú skrifaði pistil í erlendan vefmiðil.
Dorrit Moussaieff forsetafrú skrifaði pistil í erlendan vefmiðil.

Íslenska forsetafrúin skrifaði stuttan pistil um dugnað íslenskra flugmanna í erlendan vefmiðil á aðfangadag.

Pistillinn birtist á fréttavef Huffington Post undir fyrirsögninni hvernig flugvélar Icelandair flugu á sama tíma og flugvélar British Airways voru kyrrar á jörðu niðri. Í greininni lýsir forsetafrúin Dorrit Moussaieff því hvernig flugmenn Icelandair tóku til sinna ráða þegar þeim var tjáð að þeir mættu ekki taka á loft frá breskum flugvelli vegna þess að snjómokstursvélar væru ekki til taks. 

Dorrit segir flugmennina hafa drifið sig út á flugbraut með skóflur og mokað rösklega í um fimmtán mínútur þar til eldsneytisbíll komst að flugvélinni. Þegar búið var að setja eldsneyti á flugvélina var tekið á loft en þannig hafi flugmennirnir forðað farþegunum frá því að gista yfir nótt í Englandi.

Forsetafrúin hælir flugmönnunum fyrir hvernig þeir tókust á við vetrarvandræði og bendir Bretum og öðrum þjóðum á að draga lærdóm af sögunni.

Örnólfur Thorsson forsetaritari segist ekki vita til þess að forsetafrúin skrifi reglulega á vefmiðilinn, en segist telja líklegt að forsetafrúnni hafi þótt ástæða til að koma þessari sögu á framfæri. Hún hafi verið pistlahöfundur fyrir bresk blöð í um áratug, en hafi þó ekki skrifað mikið í seinni tíð.

Hægt er að lesa pistilinn

Hægt er að lesa pistilinn hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×