Innlent

Atvinnuleysi 7,7% og eykst lítillega

Skráð atvinnuleysi í nóvember 2010 var 7,7% og voru 12.363 manns atvinnulausir í nóvember að meðaltali. Þetta þýðir að atvinnuleysi hefur aukist lítillega, um 0,2 prósentustig frá október, eða um 301 manns að meðaltali.

Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun sem birtust í dag. „Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgar um 313 eða um 0,3 prósentustig að meðaltali en konum fækkar um 12 að meðaltali og er hlutfall atvinnuleysis óbreytt meðal þeirra," segir í frétt á heimasíðu stovnunarinnar. „Mest fjölgar atvinnulausum hlutfallslega á Austurlandi en þar fjölgar um 67 manns á atvinnuleysisskrá að meðaltali. Atvinnuleysið er 8,4% á höfuðborgarsvæðinu en 6,6% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 12,9 %, en minnst á Vestfjörðum 3% og 3,1% á Norðurlandi vestra. Atvinnuleysið er 8,1% meðal karla og 7,2% meðal kvenna," segir einnig.

13.619

Þá segir að alls voru 13.619 atvinnulausir í lok nóvember. „Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 11.213, af þeim voru 4.060 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun. Fjölgun atvinnulausra í lok nóvembermánaðar frá lokum október nam 339 en 324 fleiri karlar voru á skrá og 15 fleiri konur. Á landsbyggðinni fjölgar um 369 en fækkar um 30 á höfuðborgarsvæðinu."

Alls voru 2.215 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok nóvember, þar af 1.344 Pólverjar eða um 61% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 551.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×