Fótbolti

Neil Lennon stýrir Celtic áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neil Lennon, stjóri Celtic.
Neil Lennon, stjóri Celtic. Nordic Photos / Getty Images

Skoska úrvalsdeildarfélagið Glasgow Celtic mun tilkynna á morgun að Neil Lennon verði áfram við stjórnvölinn hjá liðinu. Þetta herma skoskir fjölmiðlar í dag.

Lennon var áður þjálfari varaliðs Celtic en tók við aðalliðinu þegar að Tony Mowbray var rekinn sem knattspyrnustjóri þess í mars síðastliðnum.

Celtic vann alla deildarleiki sína undir stjórn Lennon en tapaði reyndar fyrir Ross County í undanúrslitum bikarkeppninnar. Rangers varð þó meistari um vorið.

Lennon er 38 ára gamall og var keyptur til félagsins árið 2000 þegar að Martin O'Neill var stjóri liðsins. Hann vann alls fimm meistaratitla með félaginu á næstu sjö árum.

Hann var ráðinn sem þjálfari til liðsins árið 2008 og þá sem aðstoðarmaður Gordon Strachan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×