Innlent

Heilaspunaleikur á Facebook

Sesselja G. Vilhjálmsdóttir (til hægri) og Valgerður Halldórsdóttir ætla að reyna fyrir sér á Facebook.fréttablaðið/gva
Sesselja G. Vilhjálmsdóttir (til hægri) og Valgerður Halldórsdóttir ætla að reyna fyrir sér á Facebook.fréttablaðið/gva

Höfundar borðspilsins Heilaspuni, sem sló í gegn fyrir síðustu jól, eru að undirbúa Facebook-leikjaútgáfu af spilinu. Leikurinn verður til að byrja með aðeins á ensku og er ætlaður fyrir hinn gríðarstóra Facebook-markað.

„65% af þeim sem spila Facebook-leiki eru konur og það finnst okkur áhugavert því við erum tvær stelpur sem eigum þetta fyrirtæki saman,“ segir Sesselja G. Vilhjálmsdóttir, sem er manneskjan á bak við Heilaspuna ásamt Valgerði Halldórsdóttur. Þær reka saman sprotafyrirtækið Matador Media sem þær stofnuðu í kringum útgáfu Heilaspuna. Til að fjármagna þróunina á nýja netleiknum ákváðu þær að gefa borðspilið aftur út fyrir þessi jól en það seldist upp í fyrra.

„Facebook-markaðurinn er risastór og til að mynda þénar stærsta leikjafyrirtækið á Facebook meira en Facebook sjálft,“ útskýrir Sesselja. „Facebook-leikirnir fá mestar tekjur í gegnum sýndarvörur sem þú getur keypt inn í leikinn þannig að þér gangi betur, eins og í Farmville.“

Að sögn Sesselju þarf markaðssetningin að vera góð eigi árangur að nást á Facebook. „Þetta er spurning um margföldunaráhrif. Þegar fólk byrjar að spila verður svolítil keðjuverkun en það tekur smá tíma að safna keppendum. En við höfum ekki séð sambærilega leiki á Facebook og teljum þetta eiga gott erindi til fólks.“

Heilaspunaleikurinn er væntanlegur á Facebook snemma á næsta ári. Fleiri leikir eru á teikniborðinu hjá Sesselju og Valgerði, þar á meðal net-fjölskylduleikurinn Kinwins sem bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppninni The Startupp Weekend Iceland í síðasta mánuði. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×