Erlent

Hugsanlega með lífsýni úr skotmanninum

Lögreglan í Malmö í Svíþjóð er vongóð um að hafa náð DNA sýni úr manninum sem skotið hefur á innflytjendur í borginni undanfarið ár.

Fimmtán manns hafa verið skotnir í Malmö á einu ári og grunar lögregluna að einn og sami maðurinn sé þar að verki. Nú gæti lögreglan verið komin á sporið en á laugardag var skotið á verkstæði hjá klæðskera einum í borginni. Klæðskerann sakaði ekki í árásinni og hljóp hann út og sá þar ókunnugan mann. Hann náði í manninn en eftir snörp átök komst hinn grunaði í burtu á reiðhjóli.

Áður en hann flúði af hólmi hafði hann hinsvegar skallað klæðskerann í andlitið og nú vonar lögreglan að hann hafi skilið eftir hár eða húðflygsur sem duga til að finna lífsýni úr byssumanninum. Reynist það rétt er möguleiki á því að maðurinn sé á sakaskrá og þarmeð verði hægt að skera úr um hver sé þarna að verki. Óljóst er hvenær niðurstöður rannsóknarinnar berast.

Málið hefur að vonum vakið óhug meðal íbúa í Malmö. Ein kona hefur látið lífið, en margir særst alvarlega. Talið er öruggt að maðurinn stjórnist af útlendingahatri, en í Malmö, er stór hluti íbúanna af erlendu bergi brotinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×