Frjálsíþróttakonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir setti glæsilegt Íslandsmet í fimmtarþraut á sænska meistaramótinu sem fram fór í Stokkhólmi í dag.
Þetta var fyrsta þrautin sem Helga Margrét tekur þátt í síðan á Evrópumóti unglinga síðasta sumar. Þá var Helga Margrét komin með aðra hendina á gullið þegar hún meiddist og varð að hætta keppni.
Helga bætti Íslandsmet sitt frá árinu 2008 á glæsilegan hátt. Hún var með betri árangur í öllum greinum en í metþrautinni 2008 eins og sjá má hér að neðan.
Hún varð í öðru sæti á mótinu en hin sænska Jessica Samuelsson varð fyrst með 4476 stig en hún er sex árum eldri en Helga sem er aðeins 19 ára gömul.
Metþraut Helgu (árangur í gamla metinu):
60 metra hlaup: 8.86 sek. (8,90 sek)
Hástökk: 1,71 m (1,67)
Kúluvarp: 13,86 m (13,24 m)
Langstökk: 5,63 m (5,54 m)
800 metra hlaup: 2:15,31 mín (2:20,67 mín).
Stig samtals: 4205 (4018)