Innlent

Guðríður Arnardóttir: Gunnar fer með rangt mál

Valur Grettisson skrifar
Guðríður Arnardóttir svarar Gunnari Birgissyni fullum hálsi.
Guðríður Arnardóttir svarar Gunnari Birgissyni fullum hálsi.

„Hann fer bara með rangt mál," segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, sem svarar Gunnari Birgissyni, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fullum hálsi.

Gunnar sakaði meirihlutann um pólitískan ruddaskap þegar honum á að hafa verið vísað út af fundi meirihlutans ásamt minnihlutanum um fjárhagsáætlun bæjarins. Þá var honum synjað um aðgang að starfsfólki bæjarins við gerð eigin fjárhagsáætlunar.

Guðríður segir Gunnar ekki lýsa því rétt að honum hafi verið vikið af fundi.

„Ég spurði hvort hann ætlaði að sitja með okkur og hann svaraði já. Ég sagði þá að það væri skrýtið þar sem hann hugðist ekki aðstoða við áætlunina," segir Guðríður og bætir við að það sé erfitt að berja saman fjárhagsáætlun og enn erfiðara ef einstaklingur situr þar með yfirlýst markmið að vera á móti. Í kjölfarið yfirgaf Gunnar fundinn að hennar sögn.

Aðspurð hvort það væri ekki heldur mikil óbilgirni að meina Gunnari að njóta starfskrafta fjármálastjóra bæjarins svarar Guðríður: „Þetta eru reglur sem hann setti sjálfur í sinni bæjarstjóratíð."

Gunnar sagðist hugsanlega ætla að kvarta til sveitarstjórnarráðherra vegna þess að honum væri synjað um aðgang að starfsfólki bæjarins. Geri hann það þýðir það að Gunnar kvartar undan eigin reglum sem hann setti árið 2006.

Þegar haft var samband við Ármann Kr. Ólafsson, oddvita Sjálfstæðislfokksins sagðist hann ekki hafa vitað af samskiptum Guðríðar og Gunnars. Ármann segist hafa orðið var við það þegar Gunnar yfirgaf fundinn en taldi sjálfur að það hefði verið vegna þess að hann væri að vinna í eigin fjárhagsáætlun.

Það var ekki fyrr en eftir samskiptin sem Ármann segist hafa heyrt hvers kyns var og hringdi hann þá í Gunnar. Þess vegna hafi hann ekki mótmælt því þegar Gunnar fór af fundinum.


Tengdar fréttir

„Þetta er pólitískur ruddaháttur af verstu sort“

Bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, Gunnari Birgissyni, var vísað út af fundi eftir bæjarstjórnarfund á þriðjudaginn þegar hefja átti vinnu að fjárhagsáætlun bæjarins. Gunnar fullyrðir þetta sjálfur í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×