Innlent

Segir Þórhall hafa átt í leynilegu sambandi við Árna

Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV.
Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV.

Vegna opinberrar umfjöllunar um uppsögn Þórhalls Jósefssonar, fréttamanns, vill fréttastjóri RÚV taka fram að hann samþykkti aldrei að viðkomandi fréttamaður skráði ævisögu fyrrverandi ráðherra samkvæmt tilkynningu sem Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, sendi frá sér vegna uppsagnar Þórhalls Jósepssonar.

Þar segir orðrétt:

Samkvæmt starfsreglum RÚV er slíkt samþykki forsenda þess að fréttamaður geti tekið að sér slíkt starf. Rétt er að snemma á þessu ári spurði Þórhallur óformlega um það hvort fréttastjóri væri andvígur því að hann tæki að sér að rita ævisögu fyrrverandi ráðherra. Fréttastjóri treysti sér á þeirri stundu hvorki til að veita óskorað samþykki né leggjast afdráttarlaust gegn því - enda vildi Þórhallur ekki nefna um hvern væri að ræða.

Þetta var ekki rætt frekar og kom aldrei til tals aftur fyrr en opinberlega var greint frá því nýverið að Þórhallur Jósefsson væri skrásetjari ævisögu Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem margoft á þessu tímabili var til umfjöllunar og umræðu í fréttum og þáttum á vegum RÚV, eins og annarra fjölmiðla, og átti hugsanlega yfir höfði sér að vera kallaður fyrir landsdóm vegna embættisfærslu sinnar í aðdraganda hrunsins.

Það gefur auga leið að starfandi fréttamaður getur ekki átt í leynilegu trúnaðar- og starfssambandi við fyrrverandi ráðherra við þær aðstæður sem á undan er lýst. Öðru máli hefði auðvitað gegnt ef um hefði verið að ræða ævisögu fyrrverandi ráðherra sem horfinn væri af þjóðmálavettvangi og ekki í námunda við umdeild mál sem enn voru til stöðugrar umfjöllunar í fjölmiðlum.

Með þessari framgöngu fréttamannsins var vegið að trúverðugleika Fréttastofu RÚV og því trausti sem þarf að ríkja á ritstjórn þessa mikilvæga fjölmiðils í almannaeigu.

Virðingarfyllst, Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV.


Tengdar fréttir

Rekinn eftir áratug á RÚV

Fréttamanninum Þórhalli Jósepssyni hefur verið vikið úr starfi á Rúv. Þórhallur skrifaði ævisögu Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og fékk uppsagnarbréf að launum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×