Innlent

Nábítar, böðlar og illir andar höfðu betur í Hæstarétti

Hæstiréttur.
Hæstiréttur.

Lýsing hf. er ekki heimilt að taka járnabeygjuvél úr vörslu Nábíta, böðla og Illra anda ehf., með beinni aðfaragerð samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar Íslands sem staðfesti þar úrskurð Héraðsdóms Reykjaness.

Félagið, sem áður hét Bindir og vír ehf., tók lán fyrir vélinni árið 2008 í japönskum jenum annarsvegar og svo svissneskum frönkum. Lýsing leit svo á að fyrirtækið væri í vanskilum í árslok 2009. Nábítar höfnuðu því í ljósi gengisdómsins. Þeir vildu þvert á móti meina að þeir hefðu ofgreitt Lýsingu.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir meðal annars að þegar litið væri til ofgreiðslu Nábíts sem leiddi til inneignar hans hjá Lýsingu og þess að ekki lægi fyrir hvort sú inneign ætti að bera vexti eða ekki og hver fjárhæð þeirra ætti að vera, yrði ekki talið að Lýsing hefði sýnt fram á að fyrirtækið hefði verið í vanskilum með greiðslur fyrr en á gjalddaga 20. desember 2009, en samkvæmt ákvæði í samningi aðila þyrftu vanskil greiðslna að standa í 15 daga hið skemmsta til þess að riftun væri heimil.

Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um að hafna aðfararbeiðni Lýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×