Erlent

Mikilvægt að svara með afgerandi hætti

Herir Kóreuríkjanna eru báðir í viðbragðsstöðu fyrir frekari bardaga. Ef til þeirra kemur er óttast að þeir fari fljótlega úr böndunum. Forseti Suður-Kóreu segir mikilvægt að svara með afgerandi hætti.

Suður-Kórea hefur hótað ógurlegum hefndum fyrir árás Norður-Kóreu á eyna Yeonpyeong í dag. Norður-Kórea hefur sömuleiðis hótað að slá niður eins og eldingu sunnan landamæranna. Þetta hefur heyrst áður. Áhyggjur manna stafa aðallega af því að upphafið að þessari krísu var nánast eins stórt og ruddalegt og gat verið. Ekki einn og einn hermaður að skjóta heldur stórfelld fallbyssuárás. Tugir húsa í björtu báli.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu eiga varla annars kost en svara af fullri hörku ef norðanmenn svo mikið sem depla augunum eftir þetta. Þau sýndu mikla stillingu með því að aðhafast ekkert þegar Norður-Kóreumenn drápu á annað hundrað sjóliða með því að sökkva suður-kóresku herskipi í apríl síðastliðnum. Það geta þau ekki aftur ef meira verður út þessu atviki.

Það mátti líka heyra á Lee Myung-bak, forseta Suður-Kóreu, í dag. „Ég tel nauðsynlegt að svara árásinni með afgerandi hætti þannig að Norður-Kóreumenn geti ekki verið með ögranir framar.

Um 25 þúsund bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu og þeir eru í viðbragðsstöðu með her landsins. Þeir hafa meðal annars öflugar flugsveitir í landinu og viðbúið að þeir muni taka þátt í bardögum frá fyrstu stundu, ef til kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×