Innlent

Alþingi hugsanlega vanhæft

Þingmenn Hreyfingarinnar óttast að Alþingi ætli breyta tillögum stjórnlagaþings áður en þjóðin fær að kjósa um þær. Fulltrúi á stjórnlagaþingi segir að Alþingi verði hugsanlega vanhæft til að fjalla um tillögur þingsins.

Stjórnlagaþingi er gert að leggja fram lagafrumvarp með tillögum um breytingar á stjórnaskrá. Samkvæmt 16. grein í starfsreglum stjórnlagaþings á Alþingi að fá frumvarpið fyrst til meðferðar áður en það fer í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingmenn Hreyfingarinnar mótmæla þessu og telja eðlilegra að frumvarpið fari beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Við reyndum að fá þessu breytt mjög ákaft og ítrekað í forsætisnefnd en það var ekki hlustað á það. Það er alveg greinilegur vilji hjá þinginu að læsa krumlunum í drögin að stjórnarskránni og breyta þeim sjálft og það er ekki það sem þjóðin vill. Það er alveg á hreinu," segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

Þorvaldur Gylfason, stjórnlagaþingsfulltrúi, segir að ákvörðunarvaldið liggi hjá Alþingi. Sú hætta sé hins vegar fyrir hendi að Alþingi lendi í vandræðum ef stjórnlagaþing leggur til að þingmönnum verði fækkað.

„Þess vegna væri það eðlilegt frá venjulegum vanhæfis sjónarhóli að þingið léti þjóðkjörnu stjórnlagaþingi eftir að útbúa frumvarpið sem þjóðin fengi síðan að segja álit sitt á án efnislegrar tillögugerðar Alþingis um breytingar á frumvarpinu," segir Þorvaldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×