Erlent

Íhugar að náða Billy the Kid

Óli Tynes skrifar
Billy the Kid
Billy the Kid

Ríkisstjórinn í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum hefur til skoðunar að náða útlagann Billy the Kid fyrir einhver af þeim óhæfuverkum sem hann framdi. Hann var útlagi og nautgripaþjófur sem sagt er að hafi skotið 21 mann til bana. Billy the Kid hét réttu nafni Henry McCarty en gekk einnig undir fleiri nöfnum þar á meðal William H. Bonney. Það var lögreglustjórinn Pat Garrett sem loks skaut hann til bana hinn 14. júlí árið 1881. Útlaginn var þá 21 árs gamall.

Bill Richardson ríkisstjóri í Nýju Mexíkó hefur nú fengið formlega beiðni um að Billy verði náðaður. Sú náðun er byggð á samkomulagi sem er altalað að hann hafi gert við Lew Wallace sem var ríkisstjóri á þeim tíma. Samkvæmt því samkomulagi átti Billy að fá náðun gegn því að bera vitni gegn öðrum skúrki.

Billy var ekkert sérlega frægur meðan hann lifði. En eftir að Pat Garrett skaut hann til bana skrifaði hann ásamt öðrum bók um líf útlagans. Upp úr því varð hann ein af frægustu hetjum villta vestursins. Hundruð bóka hafa verið skrifaðar um hann og kvikmyndir gerðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×