Innlent

Dæmi um að foreldrar selji lyf frá börnum sínum

Karen Kjartansdóttir skrifar
Matthías Halldórsson er aðstoðarlandlæknir. Mynd/ GVA.
Matthías Halldórsson er aðstoðarlandlæknir. Mynd/ GVA.
Dæmi eru um að foreldrar hafi selt rítalín og fleiri lyf frá börnum sínum í ábataskyni. Aðstoðarlandlæknir veit til þess að söluturn í Reykjavík selji lyfseðilsskyld lyf undir borðið og undrast að lögregla láti sig þetta ekki varða.

Undanfarið hefur verið greint frá því í fréttum Stöðvar 2 að misnotkun á lyfseðilskyldum lyfjum, sem einkum eru notuð af börnum, svo sem rítalín og concerta, fer vaxandi á Íslandi.

Læknar sem rætt hefur verið við vegna þess segja ástæðuna sem fíklar gefa þeim einkum þá að mjög hafi dregið úr flæði amfetamíns hér á landi og gæði þess minnkað. Því reiði þeir sig fremur á lyfseðilskyld lyf. Þetta sé áhyggjuefni þar sem svo virðist sem sumir foreldrar sjái sér gróðavon í því að selja lyfin frá börnum sínum.

„Það ber stundum við núna að það sé verið að reyna að nálgast þessi lyf sem börnin eiga að fá og að það séu þá fíklar sem nota þau lyf," segir Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir. Af því sé tvöfaldur skaði. í fyrsta lagi fái barnið ekki það lyf sem það þurfi og að hinu leyti sé það misnotað af fíklum. Matthías segist þekkja tiltekin dæmi um þetta og að hann viti jafnvel til þess að lyfið hafi verið selt í verslun í bænum.

Matthías segist hafa tilkynnt lögreglunni um að ólögleg viðskipti með lyf séu í versluninni en lögregla hafi enn ekkert aðhafst svo hann viti til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×