Erlent

Líkbúð í fjárhagskröggum

Það er meðal annars hægt að kaupa hauskúpur í búðinni.
Það er meðal annars hægt að kaupa hauskúpur í búðinni.

Heldur sérkennileg verslun í Los Angeles í Bandaríkjunum á í fjárhagskröggum þessa dagana. Verslunin er rekin af dánardómstjóranum í Los Angeles og selur margvísislega hluti merktum embættinu og í anda þess.

Þannig eru handklæði afar vinsæl í versluninni. Á þeim eru hvítar útlínur af látnum manni. Þá er einnig hægt að fá merkimiða á tána eins og dánardómstjóri notar til þess að merkja hina látnu sem og líkpoka og hauskúpur.

Verslunin er ekkert sérstaklega vinsæl á meðal Bandaríkjamanna en Evrópubúar og Asíubúar virðast hafa áhuga á vörunum sem þar eru seldar. Fyrir vikið á verslunin í talsverðum fjárhagsvandræðum en hún hefur skilað tapi undanfarin ár. Þess vegna reka skattborgarar verslunina að hluta, sem er heldur umdeilt á meðal borgarbúa.

Verslunin var stofnuð fyrir um tuttugu árum síðan þegar einn starfsmaðurinn fór á ráðstefnu í vettvangsrannsóknum. Hann tók þá eftir því að bollar og aðrir munir merktir dánardómstjóranum voru sérstaklega eftirsóttir af gestum ráðstefnunnar.

Í kjölfarið var verslunin opnuð. Hugmyndin í upphafi var sú að hagnaður hennar yrði nýttur í forvarnarnámskeið handa bandarískum ungmennum sem voru að stíga sín fyrstu skref út í umferðina.

Rekstrarstjóri verslunarinnar, Edna Pereyda, er þó ekki af baki dottinn, til stendur að byrja að selja vatn. Flöskurnar verða merktar „líkamsvessar" (e. bodily fluids).

Hún viðurkennir í viðtali við The New York Times að það séu frekar miklir furðufuglar sem koma og versla í búðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×