Innlent

Næstversta mannfjöldaár frá 1890

Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík.

Íbúar á Íslandi eru nú liðlega 318 þúsund talsins og fjölgaði um aðeins 0,2 prósent á árinu. Ef undanskilið er árið í fyrra, þegar landsmönnum fækkaði, er þetta minnsta fólksfjölgun sem orðið hefur á Íslandi frá árinu 1890. Veruleg fólksfækkun varð á Vestfjörðum á árinu.

Mannfjöldatölur Hagstofunnar miðað við 1. desember bera glöggt vitni um þann mikla brottflutning sem á sér stað frá landinu um þessar mundir. Þannig hefur meðaltalsfjölgun á landinu undanfarinn hálfan annan áratug verið um 1,2 prósent á ári, eða um 3.500 manns á ári. Nú mælist fjölgunin hins vegar aðeins um 640 manns eða um einn sjötti af því sem væri í eðlilegu árferði.

Í fyrra gerðist það í fyrsta sinn frá tímum fólksflóttans mikla til Vesturheims á ofanverði 19. öld að fólki fækkaði á Íslandi. Staðan í ár er litlu skárri því, ef frá er talið síðasta ár, þarf að fara aftur til ársins 1890 til að finna dæmi um jafn litla fólksfjölgun og á þessu ári.

Raunar fækkar fólki í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra. Þannig fækkaði á Suðurnesjum um 1,4 prósent, á Austurlandi fækkaði íbúum um 1,2 prósent en mest fækkaði hins vegar á Vestfjörðum eða um 3,2 prósent. Þar varð Bolungarvík verst úti en þar fækkaði íbúum um 8,4 prósent. Í Vesturbyggð fækkaði um 5 prósent.

Af byggðum í öðrum landshlutum má nefna að á Seyðisfirði fækkaði íbúum um 5,2 prósent, í Mýrdalshreppi fækkaði um 7,2 prósent og í Garðinum fækkaði um 4,2 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×