Innlent

Auglýsingastofa í mál við Framsóknarflokkinn

Valur Grettisson skrifar
Þingflokkur Framsóknarflokksins.
Þingflokkur Framsóknarflokksins.

Auglýsingastofan Gott fólk hefur höfðað skuldamál í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Framsóknarflokknum vegna reikninga sem deilt er um.

Kostnaðurinn nemur um tvær milljónir króna en Framsóknarflokkurinn mótmælir reikningnum á þeim forsendum að Gott fólk hafi verðlagt vinnu sína of hátt.

Um er að ræða auglýsingar sem Gott fólk vann fyrir Framsóknarflokkinn fyrir þingkosningarnar árið 2009.

Fyrirtaka fór fram í málinu í dag en ekki er útséð hvort málinu ljúki með samningum sem báðir aðilar vinna að. Gangi það ekki eftir fer málið í aðalmeðferð.

Þess má geta að auglýsingastofan er farin á hausinn. Samkvæmt fréttum fór félagið í þrot í júlí 2009, eða um tveimur mánuðum eftir kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×