Erlent

Aukinn viðbúnaður vegna fellibyls á Haítí

Mikill viðbúnaður er nú hjá Rauða krossinum á Haítí en búist er við að fellibylurinn Tómas muni skella á eyna Hispaníólu á hverri stundu.

Fellibylurinn hefur valdið miklum usla síðustu daga í Karabíska hafinu, og er óttast að afleiðingarnar kunni að verða skelfilegar þegar hann nær landi á Haítí þar sem milljónir manna hafast enn við í bráðabirgðahúsnæði eftir jarðskjálftann mikla í janúar. Miklar rigningar fylgja fellibylnum og eykur það enn á hættuna á að kólerufaraldur blossi upp í höfuðborginni.

Þrír hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands eru nú að störfum á Haítí við tjaldsjúkrahús Rauða krossins í einu úthverfa Port-au-Prince. Allir sjúklingar á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins hafa verið fluttir á öruggan stað. Starfsmenn sjúkrahússins sem og aðrir hjálparstarfsmenn Rauða krossins á Haítí hafast enn við í tjaldbúðum og hefur verið unnið að því að flytja alla sendifulltrúa í öruggt skjól jafnframt því að bjarga skrifstofubúnaði, sjúkrahúsbúnaði, hjálpargögnum og eigum þeirra.

Á sama tíma hafa hjálparstarfsmenn Rauða krossins eflt neyðarvarnir á svæðinu til að geta brugðist sem best við verði um miklar hamfarir að ræða af völdum fellibylsins. 14 manns fórust þegar fellibylurinn gekk yfir eyna Sankti Luciu fyrr í vikunni. Um 450 manns hafa látist úr kóleru á síðustu vikum, og um 5.000 sýkst. Um 76% tilfella hafa greinst í Artibonite héraði og um 22% í miðsýslu Haítí, en rekja hefur mátt öll tilfelli sem greinst hafa í höfuðborginni til þessara svæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×