Innlent

Hafa góð áhrif á nærsamfélagið

Myndin er frá mótmælum námumanna í Líma í aprílbyrjun 2010. Þá mótmæltu námumenn nýjum reglum fyrir sjálfstæð námufélög.Nordicphotos/AFP
Myndin er frá mótmælum námumanna í Líma í aprílbyrjun 2010. Þá mótmæltu námumenn nýjum reglum fyrir sjálfstæð námufélög.Nordicphotos/AFP
Pan American Silver Peru hefur fengið Premio Desarrollo Sostenible 2010 verðlaunin (eða Verðlaun fyrir sjálfbæra þróun 2010) í flokki stuðnings við staðbundin verkefni tengd námuvinnslu. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að verðlaunin séu veitt fyrir fordæmisgefandi starf á vettvangi félags- og umhverfismála og jákvæð áhrif sem fyrirtækið hafi haft á nærsamfélög á athafnasvæðum sínum í Perú.

Ross J. Beaty, forstjóri Magma Energy, eiganda HS Orku, er stofnandi Pan American Silver, en hann er nú stjórnarformaður félagsins. Verðlaunin eru árviss en þau veita Samtök fyrirtækja í námuiðnaði, olíuvinnslu og orku í Perú (SNMPE). Verðlaunin eru sögð hafa verið stofnsett með það fyrir augum að stuðla að bættum starfsháttum í iðnaðinum og til að stuðla að langtímasjálfbærni.

Dómnefndin er skipuð nokkrum fulltrúum iðnaðar- og viðskiptalífs í Peru, sem og fulltrúum sjálfstæðra félagasamtaka, fjölmiðla og stjórnvalda. Verðlaunin voru veitt í Líma, höfuðborg Perú, 2. desember síðastliðinn. Áður hafa fengið verðlaun í sama flokki fyrirtæki á borð við Antamina, Milpo, Atacocha og Xstrata. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×