Innlent

Útsvarshækkun ógnar sérstöðu Seltjarnarnesbæjar

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu.

Ungir sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi mótmæla harðlega fyrirhuguðum útsvarshækkunum bæjarstjórnar Seltjarnarnes og telur þær með öllu óréttlætanlegar. Hækkunin ógni sérstöðu Seltjarnarnesbæjar sem fyrirmyndar bæjarfélags og hún sé auk þess ekki í takt við þau kosningarloforð sem gefin hafi verið fyrr á árinu.

Bæjarstjórn hefur ákveðið að hækka útsvarið í 12,98%. Í langflestum sveitarfélögum eru útsvarsprósentan í hámarki, eða 13,28%.

„Kjósendur flokksins hljóta að krefjast svara frá bæjaryfirvöldum um hvað hafi farið úrskeiðis í fjármálum bæjarins og hvers vegna þessi leið sé farin," segir í tilkynningu frá Baldri, félagi ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Baldur telur að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn sem fylgjandi séu fyrirhuguðum skattahækkunum séu að bregðast grundvallarhugsjónum Sjálfstæðisflokksins um hóflega skattlagningu og frelsi einstaklingsins. „Bæjarbúar hafa margir orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu undanfarið og ættu bæjaryfirvöld að leitast við að draga úr útgjöldum til að létta fjárhagslega byrði þeirra, en ekki leita í hugmyndasmiðju sósíalista sem aðeins vilja hækka skatta, slá fleiri lán og auka útgjöld."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×