Innlent

Bæjaryfirvöld ósátt við umgengni á Kársnesi og vilja tiltekt

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hefur hvatt til þess að bæjaryfirvöld, íbúar og atvinnurekendur á Kársnesi taki höndum saman á næstu vikum og mánuðum og hreinsi til á atvinnusvæði Kársness sem afmarkast af Kársnesbraut, Vesturvör og Bryggjuvör. Í dreifibréfi sem sent hefur verið umsjónarmönnum atvinnulóða á svæðinu leggur bæjarstjórinn til að hreinsunarátakinu verði lokið í mars 2011.

„Skipulags- og umhverfissvið bæjarins hefur gert úttekt á umræddu svæði og telur að umgengninni sé mjög ábótavant. Alls kyns einskisnýtum hlutum, dóti og drasli hefur verið safnað þar saman sem ekki er bjóðandi bæjarfélaginu," segir í tilkynningu frá bænum.

Þá er vakin athygli á því að fyrirtækin Fura í Hafnarfirði og Hringrás í Reykjavík taka við bílhræjum og járni til förgunar. Auk þess sé hægt á geymslusvæðinu við Straumsvík í Hafnarfirði að geyma hluti sem nýta má síðar.

„Tökum höndum saman. Bætum umgengni á atvinnusvæði Kársness og gerum hreint fyrir okkar dyrum" segir Guðrún Pálsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×